Tælensk sumarsúpa

Uppskrift í samstarfi við Gotterí og gersemar
Asískur matur er eitthvað sem fellur vel í kramið á þessu heimili. Þegar ég eldaði þessa súpu sögðu stelpurnar að lyktin minnti sig á Tæland og því fékk hún nafnið tælensk sumarsúpa.
Látið hráefnalistann ekki hræða ykkur því að elda þessa súpu í einum potti tekur ekki langan tíma og útkoman er himnesk. Ef það verður afgangur má svo bara setja lokið á pottinn aftur og geyma hann inn í ísskáp þar til næsta dag og hita súpuna þá upp.
Tælensk sumarsúpa
Fyrir um 4-5 manns
- 500 g risarækja
- ½ laukur
- 3 hvítlauksrif
- 3 cm engiferrót
- 1 msk. saxað chili
- 2 stilkar sítrónugras
- 2 dósir kókosmjólk (2 x 400g)
- 2 msk. grænmetiskraftur
- 500 ml vatn
- 2 msk. púðursykur
- 2 msk. soyasósa
- 300 g Udon núðlur
- 2 msk. karrý
- 1 msk. túrmerik
- Salt og pipar eftir smekk
- Lime, jarðhnetur, kóríander og chili (ofan á í lokin eftir smekk)
Aðferð
- Skolið og þerrið rækjurnar, leggið til hliðar.
- Saxið lauk og chili smátt og rífið engifer og hvítlauk.
- Steikið upp úr vel af olíu, kryddið með karrý, túrmerik, salti og pipar eftir smekk og bætið sítrónugrasinu út í pottinn (í um 2 cm löngum sneiðum).
- Steikið allt saman við vægan hita þar til mýkist.
- Bætið þá kókosmjólk, vatni, krafti, púðursykri og soyasósu í pottinn og leyfið að malla.
- Á meðan er gott að sjóða núðlurnar og skera kóríander, lime, chili og jarðhnetur til að setja yfir súpuna í lokin.
- Þegar núðlurnar eru soðnar má skola þær og geyma á meðan þið hækkið hitann á súpunni og bætið rækjunum saman við í um 3 mínútur.
- Þegar rækjurnar eru orðnar bleikar og fínar má setja núðlurnar í pottinn og blanda öllu saman.
- Síðan getur hver og einn skammtað sér chili, kóríander, jarðhnetur og lime.
