Tælensk sumarsúpa


Uppskrift í samstarfi við Gotterí og gersemar

Asískur matur er eitthvað sem fellur vel í kramið á þessu heimili. Þegar ég eldaði þessa súpu sögðu stelpurnar að lyktin minnti sig á Tæland og því fékk hún nafnið tælensk sumarsúpa.


Látið hráefnalistann ekki hræða ykkur því að elda þessa súpu í einum potti tekur ekki langan tíma og útkoman er himnesk. Ef það verður afgangur má svo bara setja lokið á pottinn aftur og geyma hann inn í ísskáp þar til næsta dag og hita súpuna þá upp.


Tælensk sumarsúpa

Fyrir um 4-5 manns


  • 500 g risarækja
  • ½ laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 3 cm engiferrót
  • 1 msk. saxað chili
  • 2 stilkar sítrónugras
  • 2 dósir kókosmjólk (2 x 400g)
  • 2 msk. grænmetiskraftur
  • 500 ml vatn
  • 2 msk. púðursykur
  • 2 msk. soyasósa
  • 300 g Udon núðlur
  • 2 msk. karrý
  • 1 msk. túrmerik
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Lime, jarðhnetur, kóríander og chili (ofan á í lokin eftir smekk)


Aðferð

  1. Skolið og þerrið rækjurnar, leggið til hliðar.
  2. Saxið lauk og chili smátt og rífið engifer og hvítlauk.
  3. Steikið upp úr vel af olíu, kryddið með karrý, túrmerik, salti og pipar eftir smekk og bætið sítrónugrasinu út í pottinn (í um 2 cm löngum sneiðum).
  4. Steikið allt saman við vægan hita þar til mýkist.
  5. Bætið þá kókosmjólk, vatni, krafti, púðursykri og soyasósu í pottinn og leyfið að malla.
  6. Á meðan er gott að sjóða núðlurnar og skera kóríander, lime, chili og jarðhnetur til að setja yfir súpuna í lokin.
  7. Þegar núðlurnar eru soðnar má skola þær og geyma á meðan þið hækkið hitann á súpunni og bætið rækjunum saman við í um 3 mínútur.
  8. Þegar rækjurnar eru orðnar bleikar og fínar má setja núðlurnar í pottinn og blanda öllu saman.
  9. Síðan getur hver og einn skammtað sér chili, kóríander, jarðhnetur og lime.



8 September 2025
„Þessi uppskrift er alveg hreint dásamleg. Hún er bæði auðveld og mun ódýrari en að kaupa tilbúinn hummus út í búð,“ segir heilsukokkurinn Kristjana Steingrímsdóttir eða Jana eins og hún er kölluð um þennan einfalda og gómsæta MUNA hummus sem hún skellti í á dögunum. Jana lætur flesta matargerð líta einfaldlega út en h
7 September 2025
Hvað er betra en gott kósýkvöld heima eftir góða vinnuviku? Þá er dásamlegt að setjast niður með hollari valkost af heimalöguðu poppi, sem inniheldur trefjar, færri kaloríur og andoxunarefni og njóta með góðri samvisku.