Rjómalöguð tómatsúpa og grillað ostabrauð

Uppskrift í samstarfi við MS
Ef þú ert að leita þér af gómsætri og einfaldri uppskrift þá er þessi fyrir þig. Bragðgóð súpa með grillaðri ostasamloku sem er algjörlega kjörið að bera fram á köldum vetrardegi.
Innihaldsefni
Allt sem þú þarft fyrir þessa uppskrift (fyrir 4)
- 5 stórir vel þroskaðir tómatar (u.þ.b. 750 g)
- 3-4 hvítlauksrif
- 1 stór rauðlaukur
- 3 msk. ólífuolía
- 1 msk. balsamikedik
- 2 msk. tómatpaste
- 1 dós maukaðir tómatar
- 500 ml heitt vatn
- 1 msk. grænmetiskraftur eða 1 grænmetisteningur
- 1 dós rjómaostur með tómötum og basilíku frá MS
- 150 ml rjómi frá Gott í matinn
- fersk basilíka
- salt og pipar
Grillaðar ostasamlokur:
- 8 sneiðar hvítt súrdeigsbrauð
- mjúkt smjör
- bragðmikill ostur að eigin vali, t.d. Óðals Tindur eða Búri
Leiðbeiningar
Fylgdu skrefunum og þá gengur allt eins og í sögu
- Hitið ofn í 200 gráður.
- Setjið gróft skorna tómatana, lauk og heil hvítlauksrif í fat, hellið ólífuolíu og ediki yfir, saltið og piprið og bakið í 30-40 mínútur.
- Færið bakað grænmetið yfir í stóran pott, bætið út í einni dós af tómötum, tómatpaste, vatni, grænmetiskrafti og hitið aðeins.
- Maukið með töfrasprota ef þið viljið flauelsmjúka áferð á súpuna, en sleppið annars.
- Bætið út í rjómaostinum ásamt rjóma og ferskri basilíku eftir smekk.
- Smakkið til með salti og pipar.
- Ef ykkur finnst súpan of þykk má þynna með meira vatni.
- Gerið samlokurnar.
- Leggið tvær brauðsneiðar saman með nóg af osti á milli.
- Smyrjið samlokurnar að utan með smjöri og steikið á báðum hliðum á meðalheitri pönnu þar til osturinn hefur bráðnað.
- Berið fram með súpunni.
