Karamellu tiramisu

Uppskrift: Gott í matinn
Tiramisú er dásamlegur eftirréttur sem er léttur og sætur, og bara fullkominn eftir þunga máltíð ef mann langar í smá sætt. Ég ákvað að ögra smá klassísku tiramisu og prófa að breyta því svolítið með karamellusósu og Doré karamellusúkkulaði og útkoman er í einu orði sagt dásamleg.
Uppskriftin dugar fyrir 4-6
Hráefni
- 100 ml sterkt kaffi
- 2 stk. egg
- 80 g sykur
- 250 ml rjómi frá Gott í matinn
- 100 g Doré karamellu súkkulaði frá Nóa Síríus
- 200 g mascarpone frá Gott í matinn
- 1 pk. lady fingers (24 stk.)
- karamellusósa, keypt eða heimagerð
- 2 msk. kakó (2-3 msk.)
Karamellusósa
- 200 g sykur
- 50 ml vatn
- 100 ml rjómi frá Gott í matinn
- 50 g smjör
Leiðbeiningar
- Gott er að leyfa hráefnum eins og eggjum, rjóma og mascarpone ostinum að standa á borði í svolitla stund áður en er farið að gera tiramisu, það hjálpar hráefnunum að blandast betur saman.
- Hellið upp á sterkt kaffi og leyfið að kólna lítillega.
- Setjið egg og sykur saman í hrærivélarskál og þeytið saman þangað til það er létt og ljóst, í u.þ.b. 3-4 mín. Þeytið þá rjómann í annarri skál og í þeirri þriðju bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Þegar súkkulaðið er bráðið, setjið hrærivélina af stað með eggjunum og sykri og blandið súkkulaðinu saman við. Passið að súkkulaðið hafi kólnað lítillega áður.
- Blandið þá súkkulaði blöndunni varlega saman við rjómann. Notið síðan rjómaskálina og setjið mascarpone ostinn í og hrærið aðeins í honum, blandið þá smá af súkkulaði rjómablöndunni við ostinn og þegar hann hefur samlagast við blönduna, bætið öllu saman í eitt.
Karamellusósa
- Setjið sykur og vatn saman í pott á miðlungshita.
- Leyfið blöndunni að malla án þess að vera að hræra í henni þangað til að allur sykurinn er bráðinn, fylgist með þegar hún fær á sig gylltan lit.
- Þegar hún hefur fengið á sig lit er gott að slökkva undir og bæta rjómanum saman við og hræra á meðan.
- Þá er smjörinu blandað saman við og þá ætti karamellan að vera klár.
- Hellið í krukku sem hægt er að loka og leyfið að kólna.
Samsetning
- Finnið til skál eða fat og sáldrið smá kakódufti í botninn (gott er að nota tesíu í verkið eða fínt sigti).
- Bleytið þá upp í lady fingers kökum í kaffinu, eina í einu og leggið í fatið.
- Drisslið karamellu yfir kökurnar u.þ.b. 2 msk. og sáldrið kakódufti yfir, setjið þá um helming af blöndunni yfir.
- Þá er það að endurtaka leikinn. Bleyta í kökunum og leggja yfir, karamella og kakóduft.
- Í lokin má setja hinn helminginn af blöndunni yfir eða setja í sprautupoka með stút og sprauta yfir til að fá skemmtilega áferð.
- Setjið í kæli og leyfið að hvíla í 8-24 tíma.
- Áður en tiramisuið er borið fram sáldrið kakódufti yfir og bjóðið restina af karamellusósunni með, fyrir þá sem vilja meira með.




