BBQ kjúklingasalat með stökkum grillostateningum

Uppskrift: Gottímatinn


Ég er alltaf að leita að nýjum útgáfum af kjúklingasalötum og er algjörlega á því að salat þurfi bara aldrei þýða eitthvað þurrt og bragðlaust. Þetta salat hittir í mark og rúmlega það. Steiktu grillosta bitarnir eru frábærir, einstaklega stökkir og mögulega ávanabindandi. Svona salat uppskrift er svo auðvitað þannig að aðlaga má að smekk hvers og eins hvað fer út í, en svona þykir okkur það best.


Innihald: Fyrir fjóra


  • 1 stk grillostur frá Gott í matinn
  • 8 úrbeinuð kjúklingalæri (ca 700 gr)
  • 1 salatbakki með blönduðu salati
  • 3 tómatar
  • ½ rauðlaukur
  • ½ agúrka
  • Góð handfylli rifinn ostur
  • Grill og steikarkrydd eða blandað kjúklingakrydd
  • BBQ sósa til penslunar


Innihald: Sósa



  • 1 dós 18% sýrður rjómi frá Gott í matinn
  • 2 msk majónes
  • 2 msk BBQ sósa
  • 1 tsk chillimauk t.d. Sambal oelek (eða minna eftir smekk)
  • 1 msk hvítvínsedik
  • 1 tsk hunang eða önnur sæta


Aðferð


  1. Byrjið á að hita ofn í 200 gráður með blæstri. Raðið kjúklingalærunum á plötu, kryddið og bakið í 15 mínútur. Penslið þau þá ríflega með BBQ sósu og bakið áfram í 10 mínútur. (Það má líka grilla lærin, það er ekki síðra).
  2. Gerið sósuna á meðan kjúklingurinn bakast. Hrærið öllum hráefnunum saman í skál og smakkið ykkur áfram með chilli, BBQ sósu og hunangi.
  3. Skerið grillostinn í teninga, svipaða af stærð og brauðteninga. Hitið vel af olíu á pönnu við meðalháan hita og steikið ostinn á öllum hliðum þar til gullinbrúnn og stökkur. Gott er að krydda ostinn eftir steikingu með grill- eða steikarkryddi. Færið ostinn á eldhúspappír.
  4. Setjið salatið saman. Skerið grænmetið og setjið á fallegan salatdisk. Skerið kjúklinginn í strimla og leggið yfir, stráið yfir rifnum osti. Endið á grillostateningunum og toppið með smá sósu. Berið fram strax með auka sósu til hliðar. 
BBQ kjúklingaborgari
25 June 2025
Klassískur réttur sem ég hef gert í mörg ár. Tekur enga stund að útbúa, er svo ljúffengur og allir í fjölskyldunni elska hann. Það er einnig mjög gott að grilla kjúklinginn en annars er afar fljótlegt að elda hann í ofninum.
Sumarleg vanilluterta með möndlukremi og jarðarberjum
25 June 2025
Þessi vanilluterta er sannkallaður sumardraumur – svo mjúk með djúpu vanillubragði og dásamlegu silkimjúku möndlukremi. Þessi kaka hentar vel í veislur, afmæli eða bara þegar þið viljið fagna sumrinu með einhverju ljúffengu – hér er sumar í hverjum bita, ég lofa!